Erfitt, mjög erfitt

Æfingu dagsins er lokið. Hraðaæfing sem fór fram í Laugardal undir handleiðslu lærimeistarans. Léttir 3 km í upphitun, því næst 4 x 800 m sprettir með 2,30 mín joggi á milli. Í lokin var svo joggað niður 3 km. Samtals um 10 km með öllu.

Fyrstu 800 á 2,56 mín sem er 3,40 pace. Önnur umferð á 3,03 mín sem gerir tæplega 3,49 hraða. Númer 3 á 3,12 mín sem gerir 4,00 mín. Síðasti á 3,16 sem gerir 4,05 mín.

Ekki er ég nú alveg nógu fróður til að lesa vel úr þessu, en greinilegt er þó að það vantar uppá úthald í sprettum. Kemst miklu hraðar en þetta en spring alltof fljótt á limminu. Gaman verður að taka þetta aftur eftir nokkrar vikur og sjá bætingu. Það er að segja ef maður þorir í þetta aftur, þetta er alger pína, samt gott eftirá.

Gaman að því að enginn annar en Hannes Páll Guðmundsson var á hliðarlínunni og hvatti mig til dáða. Hann og Þorvaldur Geirsson heiðursmaður voru að stjórna hlaupaæfingu á vegum slökkviliðsins.

Var ekkert að nefna hálfmaraþonið um helgina þar sem ég veit að þjálfarinn er því mótfallinn, stelst bara í það og vona að ég fari mér ekki að voða. Ég á nú hvort eð er að hlaupa 20 km á laugardaginn, fer bara rólega, pjakka þetta eins og ritarinn segir.

 

NG


Ég er líka manneskja

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að karlmenn eru líka manneskjur. Mikið er ég orðinn þreyttur á þessu bulli.

 

NG


Hálft í Marsþoni, vonandi

Ekkert hlaup í dag. Fer í rækt eftir vinnu og svo á golfæfingu í kvöld. Á morgun er svo hraðaæfing hjá Sigurði P. Ég ætla að væla svolítið í honum um að fá að hlaupa hálft á laugardag í Marsmaraþoni, á hvort eð er að hlaupa 20 km þann dag samkvæmt prógrami.

NG


Föstudagurinn langi og laugardagur

Ákvað að hliðra aðeins til í prógraminu og fór 18 km í gær. Ástæðan var afmælisveisla í gærkvöldi og hafði ég nokkrar áhyggjur af því að heilsan yrði ekki uppá það besta í dag. Var mjög léttur og fór þessa ´18 á 1,29,37 mín, 4,59 pace. Átti nóg inni og síðustu 3 km voru á 4,42, - 4,35 og 4,25 mín.

Rúllaði svo 7,5 i morgun með sjálfum Valsaranum, það var ágætt. Vikan endar þá í 57 km sem er aðeins meira en prógram segir til um. Best er að ég er alveg laus við kvefið.

 

NG


Yfir leyfilegum endorfín mörkum

Við Sigurður rúlluðum létta 12 kílómetra í hádeginu. Erum eins og gefur að skilja báðir endurnærðir og eiturhressir. Endorfínið dugar okkur langt inn í daginn. Söknum þess reyndar að félögum í hádegisklúbbnum skuli ekki fjölga þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar hinna ýmsu aðila.

Í bílnum á leiðini í vinnuna aftur setti Sigurður út á aksturslag undirritaðs. Hugleiddum í framhaldinu hvað hefði gerst ef laganna verðir hefðu stöðvað ökumanninn. Ætli það sé hægt að vera langt yfir leyfilegum endorfín mörkum?

 

NG


Að komast í gang

Góð æfing eftir vinnu. Byrjaði á rólegri upphitun fyrstu 2 km. Eftir góðar teygjur var farinn Neshringur á góðu gasi, fór hann á 13,57 mín við mjög óhagstæðar aðstæður, bálhvasst. Síðasta tímataka á þessum hring var 30. desember 15,15 mín þannig að bætingin er mjög góð. Rúllaði svo 4 km í viðbót, þar af síðasta kílómeterinn á 4,21 mín. Samtals 9 km.

 

NG


Árshátíð og recovery

Helgin var skemmtileg en eftirköstin ekki. Árshátíð Dúddans hófst í hádeginu á laugardag of stóð fram til kl. 6 á sunnudagsmorgun. Síðasta stopp var Cafe Kósý í Austurstræti þar var mér tjáð að ég væri fallegur og hægra eyra mitt var sleikt. Þetta var reyndar huggulegasti drengur en við náðum ekki saman að þessu sinni, kannski síðar.

Af skiljanlegum ástæðum verður liðurinn "einingar í vikunni" í fríi þessa vikuna. Talning var ekki nógu nákvæm. Annars hélt ég að maður væri hættur þessari vitleysu, en lengi er von á einum.

Var enn slappur í vinnunni í dag en náði að hrista mesta skítinn af mér núna seinni partinn með 10 kílómetra hlaupi. Þessi vika verður vonandi betri en sú síðasta í hlaupalegum skilningi. Kvefpestin gerði það að verkum að vikan varð einungis uppá 31 km.

 

NG


Kvefpest

Hef verið slappur síðustu daga. Sleppti fimmtudagsæfingu vegna kvefpestar. Ætlaði að reyna að hrista þetta af mér áðan og fór á brettið í ræktinni. Hljóp 11 km en var þá orðinn verulega slappur. Nú er ég ekki frá því að mér hafi tekist að verða almennilega veikur. Maður er svo skynsamur, kemur í ljós í kvöld eða fyrramálið. Það væri hrikalegt að missa af árshátíð Barbeque klúbbsins Dúdda sem hefst í hádeginu á morgun og stendur fram eftir kvöldi.

 

NG


Febrúar

Febrúar, uppgjör.

Eftir að hafa verið kyrrsettur á þrekhjóli megnið af janúar vegna meiðsla þá er ég nokkuð sáttur við þróunina í febrúar. Náði samtals 17 hlaupaæfingum frá 6 degi mánaðarins. Á þeim æfingum voru samtals farnir 171,60 km. Er kominn í fast prógram sem hjálpar mikið til, annars æðir maður áfram eins og flóðhestur þangað til meiðsli valda kyrrsetningu. Næstu vikur eru spennandi þar sem álagið fer smám saman vaxandi og verður gaman að sjá hvernig skankarnir bregðast við því. Spurning hvernig maður fer að í júlí þegar vikurnar verða í 100 km +, það verður ekki ýkja mikið golf á þeim tíma. Kannski spurning um að taka morgunæfingar á þeim tíma.

Vigtin sýnir 93-94 kg, samtals 10-11 kg farin síðan í nóvember. Þjálfarinn vill fá mig niður í 88 í rólegheitum. Þegar því verður náð mun manni væntanlega svipa til Eþíópíumanna, sem er mjög gott þegar langhlaup eru annarsvegar.

Hádegisæfingar voru teknar upp í mánuðinum, mjög hentugt tvisvar í viku og komið til að vera.

 

NG

 


Ironman

http://www.youtube.com/watch?v=tRB1p89k7_I

 Þetta er svakalegt, varð hræddur við að horfa á þetta. Ætla rétt að vona að maður lendi aldrei í þessu.

 

NG


Fartleikur í hádeginu

Fór góðan fartleik í hádeginu á Álftanesi. 2 km skokk í upphitun. 200, 300, 400, 500, 600, 200, 300, 400, 500 og 600m pressa með léttu skokki á milli. Endaði svo á léttu joggi síðustu 2 km. Samtals rúmir 10 km. Fór hraðast niður í 3.19 mín tempó.

 

NG


10

Það er gott að vakna snemma á sunnudagsmorgni. Fór rólega 10 km í morgun í kulda og norðangarra. Svo var legið í potti og teygt vel og lengi.

Hef ákveðið að nota þessa síðu til að halda utan um neyslu áfengra drykkja.

Einingar í viku, samtals 9.

 

Ng


Samkvæmt áætlun

16.07 km

Frábært veður í morgun og 16.07 km lagðir að baki eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Léttur og frískur og gat ekki setið á mér með að fara aðeins hraðar en áætlunin segir til um. Kláraði á 1.25.29 sem gerir 5.19 mín meðalhraða, átti að vera í kringum 5.40.

Svo er bara að vona að Liverpool klári sig í dag, væri gaman að sjá Mascherano spila einn hálfleik. Er mjög spenntur fyrir þeim leikmanni.

 

NG


12 góðir um nónbil

Fór 12 km í hádeginu samkvæmt prógrami. Jafn hraði þjálfarinn mælti með ca. 5.15 mín hraða. Fór þetta á 58.38 mín sem gerir 4.53 mín hraða án þess að erfiða mikið, sáttur með það. Á morgun er hvíld, 16 km rólegir á laugardag og 10 km rólegir á sunnudag.

NG


Bellamy er kóngurinn

Frí í dag samkvæmt prógrami. Naut kvöldsins með því horfa á mína menn niðurlægja Barcelona. Bellamy er kóngur svona eiga menn að svara slúðri og kjaftæði. Hann verður lykilmaður hjá Liverpool um ókomin ár.

 

NG


Hlaupið með goðsögninni

Snilldar æfing í dag 8 km fartleikur í Laugardal. Sigurður P. Sigmundsson Íslandsmethafi í maraþoni þrælaði mér áfram. Virkilega gaman að fá að hlaupa með goðsögninni. Hann er búinn að setja saman prógram sem miðast við að toppa í RM í ágúst. Önnur plön verða því að víkja í bili. Þetta er nokkuð þétt prógram sem byrjar þó aðeins á 4 æfingum á viku en fer stigvaxandi og nær hámarki í júlí, 100 km plús á viku. Ljóst að golfið verður að víkja að einhverju leyti. Nú er maður kominn í góðar hendur.

 

NG


Langur sunnudagur

22 km

Jæja nú er maður endanlega búinn að missa það. Myndin að ofan er af hlaupaleið dagsins 22,73 km. Þetta var rólegt og átti líka að vera það. Rúllaði þetta á 2 klst 9 mín og 26 sek, Inni í þeim tíma eru drykkjarstopp og smá teygjur. Ég finn í þessum lengri hlaupum að mig vantar styrk í lappirnar. Treysti Sigurði P. Sigmundssyni til setja mér fyrir í þeim efnum, ég pantaði nefnilega 3 mánaða prógram frá honum í gærkvöldi. Pumpan virðist vera í ágætu standi og slögum fer fækkandi var með 150 að meðaltali í þessu hlaupi. Brennslan 2173 kaloríur.

Gerði mér það til gamans að framreikna þennan rólega hraða í heilt maraþon. Hraðinn var 5.42 mín á km. x 42,2 = 4 klst sléttar. Auðvitað er langt í land með að klára þann pakka, en um leið og styrkur eykst í löppum verður þetta allt auðveldara.

Stefni á hálft í Marsmaraþoni á undir 1 klst og 50 mín. Held að það sé mjög raunhæft sérstaklega ef maður kemur hvíldur og ferskur til leiks.

Siggi mældi Álftaneshringinn í dag og hann kemur út á 10,6 km sem hljómar mun betur. Það þýðir pace á sléttum 5 mín á föstudaginn síðasta.

 

NG


Fíkn á fíkn ofan

Í gær var var farið á pílukvöld í KR-heimilinu. Þar var drukkinn bjór og síðan stefnt að því að kíkja með strákunum í miðbæ Reykjavíkur. Hugmyndin var því að hafa hlaupafrí í dag og hvílast. Uppúr miðnætti gerðust undur og stórmerki. Hlaupafíknin varð áfengis og skemmtanafíkninni yfirsterkari. Undirritaður yfirgaf því samkvæmið, skokkaði heim og ákvað að hlaupið skyldi í dag. Rosalega er maður orðinn skynsamur, enda miðaldra og lífsreyndur.

Í morgun var svo vaknað um 10 leytið og smeygt sér í nælongallan. Svo var haldið út í vorveðrið og joggaðir í rólegheitum 13.83 km skv. Google Earth( Polar græjan er eitthvað vanstillt). Var nokkuð léttur og sjaldan liðið betur á hlaupum. Tíminn 1 klst 16 mín og 5 sek, það gerir meðalhraða uppá 5.29 mín pr. km. Blés ekki úr nös og meðalpúls 155 slög. Mældi til gamans hvíldarpúlsinn í morgun þegar ég vaknaði, 41 slag. Held að það sé nokkuð gott Glími þó við eitt hvimleitt vandamál, geirvörturnar á mér eru orðnar að svöðusári og fossar úr þeim blóð á hlaupum. Þarf að finna lausn á því.

Þetta þýðir að vikan er komin í 58 km sem er bara nokkuð gott fyrir meiðslapésa eins og mig. Vonandi helst maður heill og getur byggt ofaná þessa góðu viku.

 

NG


Hádegishlaupi II lokið

Ég vil byrja á að þakka fyrir þann heiður sem mér er sýndur, feministanum sjálfum, að fá að rita hugleiðingar mínar á Nöllablogg.

Eins og aðdáendur síðunnar hafa tekið eftir tóku við uppá þeirri mögnuðu iðju að henda okkur í 10km hlaup í hádeginu. Þetta var annað hlaupið í seríunni og má því til sanns vegar færa að þetta sé orðið að venju. Það er nú ekki hlaupið að því að koma hlaupinu fyrir í þéttri dagskrá  og sérstaklega ekki þar sem við erum þekktir meiðslapésar. Uppúr ellefu þarf að byrja nudda auma vöðva með deep heat og skella í sig bólgueyðandi pillum, einhverjir þurfa að smeygja sér í níðþröngan spandexinn, hanska og húfu í stíl. Því er ekki að neita að Nöllinn er stórglæsilegur í outfittinu þannig að oft reynist erfitt að einbeita sér að hlaupinu.

Hlaupið sjálft tókst svona líka glimrandi vel. Okkur var vel tekið við rásmarkið og löggan sá sér fært um að stöðva umferðina svona rétt á meðan við vorum að koma okkkur af stað. Mætingin var 66,67% en Múrarinn var fjarri góðu gamni þar sem Nöllinn sprengdi á honum hnéin í vikunni. Veðrið var með ágætum þótt hinn alþekkti mótvindur var í fangið allan hringinn. Hringurinn var sá sami og síðast eða 10,3 km og tíminn 53 mínútur og 13 sekúndur, sem er nýtt hádegishlaupsmet. Hámarkshraði var 4,17 og meðalhraði 4,5 sem þýðir að það er ekki allt með felldu. Annaðhvort er hringurinn lengri eða Polar RS400 geimúrið sé skemmtilega vanstillt. Official mæling verður að fara fram um helgina og beiðni þess efnis hefur þegar verið send yfirvöldum. Tæplega 1100kcal urðu að engu í áreynslunni. Vitrir menn hafa sýnt fram á að 7000kcal missir sé 1kg af hreinu spiki og því er enn af nógu að taka. Vonir standa til að  í næstu hlaupum muni fjölga verulega í klúbbnum og hann jafnvel fá alþjóðlegra yfirbragð en Færeyingurinn og Loðfíllinn hafa verið að æfa í laumi og hyggjast reyna fyrir sér munum við að sjálfsögðu taka á móti þeim með opnum örmum.

Það verður ekki annað sagt en að vikan sé búin vera góð og undirritaður hefur klárað 55km sem er hið besta mál og endorfínið flæðir út um allar gáttir. Framundan er létt helgi en það má vera að maður laumi sér í 10-15km á sunnudaginn ef vel viðrar.

Fyrir hönd hlaupaklúbbs DM,

Sigurður Ómarsson


Komið að hádegishlaupi

Erum að leggja lokahönd á að galla okkur fyrir hádegishlaupið. Bryddað verður uppá þeirri nýjung að hlaupi loknu að Sigurður Ómarsson mun gerast gestapenni. Verður spennandi að sjá hvernig feministinn Sigurður tæklar málin.

NG


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband