17.1.2007 | 22:27
Skammgóður vermir
Æfingu dagsins er lokið. Ákveðið var að hafa hana í léttari kantinum. Hitað upp í 30 mínútur á þrekhjóli og svo var hugmyndin að reyna aðeins á fótinn og hlaupa 5 km á bretti. Funheitur eftir hjólið var byrjað að hlaupa og hraðinn stilltur á 14 km pr. klst. Gekk vel og 5 km lokið á nýju Íslandsmeti, það var a.m.k. það sem ég hélt. Tíminn 17 mínútur og 24 sekúndur.
Gríðarlega sáttur steig ég af brettinu og sýndi Vallibal Lecter sem staddur var í ræktinni á sama tíma afraksturinn. Nú mátti Kári Steinn fara að vara sig, Antilópan á hraðri leið í form. Púlsinn var í um 180 slögum og ekki hægt að ætlast til þess að maður hugsi skýrt undir slíkum kringumstæðum.
Þegar um fór að hægjast fóru að renna á mig tvær grímur, þetta gat ekki verið. Á meðan teygt var fór ég að reikna í huganum. 14 km pr. klst er sama og 7 km pr. hálftíma, það gerir rúmlega 4 mínútur og 15 sekúndur pr. kílómeter. Gerði mér þá grein fyrir því að Íslandsmetið sem ég taldi mig hafa sett fékk ekki staðist.
Engu að síður góður sprettur og ekki fann ég mikið til í fætinum. Það verður samt að segjast að hlaupum á bretti er ekki hægt að jafna við útihlaup, jafnvel þó brettið hafi verið stillt í 1 gráðu halla. Maður lyftir bara upp skönkunum og færibandið sér um rest.
Vinsamlegum tilmælum er beint til Þrekhúss fólks um að stilla brettin uppá nýtt svo koma megi í veg fyrir frekari misskilning af þessu tagi.
NG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.