Upphaf

Gott kvöld.

Ekki óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að gerast bloggari, en ég ætla að prófa. Ég kann reyndar ekki að blogga,  en það hlítur að lærast eins og annað.

Ástæðan er öðru fremur sú að þann 3. nóvember 2006 byrjaði ég að hlaupa og það hefur ágerst svo mikið að ég get núorðið kallað mig hlaupafíkil með góðri samvisku. Þetta er allt hið undarlegasta mál, í upphafi var það kvöð að drífa sig af stað, en eftir því sem þrekið jókst fór þetta að verða þolanlegra og nú er svo komið að ég get ekki án þess verið að hlaupa í a.m.k. klukkutíma á dag. Nú hefur stefnan verið tekin á Maraþon, eða Þon eins og mjög reyndir hlauparar kalla það, helst strax í lok marsmánaðar ef undirbúningur verður meiðslalaus. Ég hef fundið prógram á annari blogsíðu,http://hlaup.malbein.net/blog/?page_id=301 nánar tiltekið "Dagbók ritarans" sem haldið er úti af Gísla Ásgeirssyni, ritara Félags Maraþonhlaupara sem greinilega er mikill snillingur, þekki ég þó manninn ekkert. Vonandi dugar það prógram til þess að koma manni í þann félagsskap áður en langt um líður.

Tilgangur þessarar síðu er meðal annars að hjálpa undirrituðum að halda utan um undirbúning fyrir áðurnefnt Þon og leyfa öðrum, ef einhverjir hafa áhuga, að fylgjast með. Ég er nefnilega orðinn það manískur að ég tala ekki orðið um annað en hlaup og get ímyndað mér að vinir og kunningjar séu orðnir þreyttir á því rausi. Nú ef ekki, geta menn og konur komið hingað inn og fylgst með hvernig gengur.

Eins og áður segir þá byrjaði þetta hlaupaball þann 3. nóvember 2006. Í fyrstu var lagður að baki svokallaður Neshringur, sem mælist 3400 metrar. Þetta var maður að silast á rúmum 20 mínútum til að byrja með. Fljótlega fór þó hraðinn að aukast og ástandið að batna eftir að hringnum var lokið. Að tveimur vikum liðnum langaði mig að prófa að fara lengra, fyrst 4 km, þá 5 km og þann 15. nóvember hljóp ég 9 km. Þetta fannst mér ótrúleg vegalengd og mikið var ég ánægður með sjálfan mig 58 mínútum eftir að ég lagði upp í þessa langferð, en þá var komið í mark. Upp frá þessu var tekin sú ákvörðun að fara í Gamlárshlaup ÍR, sem eins og nafnið gefur til kynna er þreytt þann 31. desember. Markmið var sett og það var að fara undir 55 mínútur.

Í framhaldinu var farið í göngugreiningu og fjárfest í forláta hlaupaskóm. Svo var haldið áfram að hlaupa. Yfirleitt 10 km, lengst 16 km og svo hafði ég lesið mér til um það að maður þyrfti að fara svokallaða hraðleiki til að auka hraðann. Í það var notaður Neshringurinn og hlaupið upp allar Strandir við Norðurströnd á vaxandi hraða, svo var skokkað mjög rólega niður. Þessum æfingum var blandað saman og samtals voru lagðir að baki 105 km í nóvember og 136 km í desember.

Svo var komið að stóra deginum, 31. desember, Gamlárshlaup ÍR. Á jólagjafalistanum höfðu verið spandexbuxur, hlaupaúr með púlsmæli og hraðamæli, drykkjarbelti, hlaupavetlingar o.fl. Þetta þýddi að undirritaður gat mætt til leiks án þess að horft væri á mann eins og geimveru. Um morguninn gerði vart við sig nettur niðurgangur vegna spennu eins og oft gerist fyrir mikilvæg golfmót, fyrir erfiða fundi í vinnunni eða fyrir mikilvæga leiki í gamla daga. Svo mikil var eftirvæntingin. Í rásmarkinu þar sem ég hafði komið mér fyrir með aftasta fólki, til þess að vera nú örugglega ekki fyrir neinum, uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að ipod-inn hafði orðið eftir heima.

 Flugeldur fór í loftið og hlaupið var hafið. Fyrstu 3 mínúturnar voru farnar á gönguhraða enda á að giska um 500 manns á undan á misjöfnum hraða. Eftir að komið var út að Mýrargötu var gefið í, mér fannst ég þurfa að vinna upp tapaðan tíma úr startinu. Frá 1 km og fram að 5 km sýndi klukkan um 4.30 mín pr. km, sem var náttúrulega alltof hratt eins og átti eftir að koma á daginn. Mér leið þó ágætlega þegar komið var að Bakkavör eftir um 5,5 km, en að brekkunni lokinni var ég alveg búinn. Púlsklukkan sýndi 188 slög og ekki var um annað að ræða en að hægja á. Að 6 km loknum sýndi klukkan 29.03 mín. Síðustu 4 km voru mikið strögl, en hlaupinu skyldi lokið og það hafðist á tímanum 51.29 mín sem var vel undir markmiði og betra en ég þorði að vona.

 Hvílík skemmtun og hvílík vellíðan að hlaupi loknu, þrátt fyrir mikla vanlíðan síðustu 4 km. Nú er ekki aftur snúið, um áramót voru sett markmið eins og siður er. Þau markmið eru flest tengd þessari hlaupadellu. Best að birta þau hér, til að setja á sig smá pressu. Jafnvel þó ég hafi ekki hugmynd um hvort þau séu raunhæf eða ekki.

1) Ljúka Þoni á 3.40 klst á árinu.

2) Ljúka hálfu á 1.40 klst á árinu.

3) Ljúka 10 km á undir 40 mín á árinu

4) Ljúka Marsþoni á 4.10 klst

 Mjög ögrandi markmið og hugsanlega ekki raunhæf fyrir tveggja metra og hundrað kílóa óreglumann, en ég ætla að reyna og vonandi kemur lífsstíllinn með. Maður hefur svo sem ekki verið þekktur fyrir að gera hlutina með einhverju hálfkáki hingað til.

 

Shit hvað maður er orðinn steiktur.

 

photogallery


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband