Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Þetta er helst

Vinna var stunduð frá níu til fjögur. Því næst var horft á handboltann eins og flestir aðrir. Að leik loknum var farið í Þokkabót og hjólað í dágóða stund. 1175 hitaeiningum brennt á um 75 mínútum skv. Polar RS 400 græjunni. Fóturinn enn í steik. Annað ekki að frétta.

 

NG


Skoðanakönnun

Eins og mjög glöggir lesendur geta séð þá hefur verið bætt einu orði inn í textann ofan við skoðanakönnunina hér til vinstri. Þetta er einungis gert þar sem það virðist henta mér betur á þessari stundu.

NG


Hrindingar, veður, geðsveiflur og fleira

Ég öfgafullur einstaklingur. Ég er latur. Ég er duglegur.Ég er sorgmæddur og ég er glaður. Ég er klofinn persónuleiki. Ég er eins og íslenska veðrirð, er ekki í tísku að segja það núna?

Margt hefur drifið á daga mína frá síðustu færslu. Eitthvað hef ég reynt að puða á þrekhjólinu en það er margt skemmtilegra. Mig er farið að þyrsta í að hlaupa aftur. Á föstudag fékk ég þann úrskurð frá sjúkraþjálfara að ég þyrfti að sleppa hlaupum í 3-4 vikur til viðbótar. Á meðan verð ég að gera mér hjólið að góðu. Í framhaldinu væri hugsanlega skynsamlegra að reyna að fara hægar í sakirnar og byggja sig upp í rólegheitum. Væri gaman að prófa að gera eitthvað á eðlilegum hraða. Hálft gæti þurft að duga í Marsþoni.!!!!!!!! Nú veit ég reyndar að einhverjir kunna að kætast, en það verður að hafa það.

Ég hef farið í gegnum miklar geðsveiflur eins og flestir Íslendingar aðrir síðustu daga. Ástæðan, jú gengi landsliðsins í hrindingum. Íþrótt sem örfáar þúsundir stunda á heimsvísu. Hvernig getur heil þjóð verið svona steikt, að mér meðtöldum? Eftir tapið á móti arfaslökum Úkraínumönnum var ég einn af þeim sem snéri baki, ekki bara gegn liðinu, heldur líka gegn íþróttinni. Hverjum er ekki sama um hrindingar? Maður píndi sig svo í að horfa á Frakkaleikinn og viti menn þá sleppti ég mér alveg í gleðinni yfir því hve Íslendingar eru góðir í hrindingum. Nú er staðan orðin þannig að ég vil ólmur komast til Þýskalands og taka þátt í ævintýrinu, þrátt fyrir ólýsanlega flughræðslu. Ef við töpum svo á morgun þá eru þetta jú bara hrindingar, einkar hentugt.

Annars hefur mér verið boðið til Lundúna um næstu helgi í þeim tilgangi að horfa á tvo kappleiki í öllu göfugri íþrótt. Ég sveiflast reyndar alveg jafn mikið í skoðunum á þeim kanti. Eiður Smári var frábær í haust, einn af allra bestu leikmönnum heims. Nú er hann landanum til skammar, bara latur og frjálslega vaxinn. Í haust vildi ég að Rafa Benites yrði rekinn, hann er bara vitleysingur. Nú er Rafa Benites lang besti stjórinn í boltanum, á því leikur enginn vafi. Leikirnir sem í boði eru West Ham gegn Liverpool og Tottenham geng Arsenal. Ef satt er að Eggert Magnússon og félagar ætli að greiða miðlungsmanninum Lucas Neill 60.000 sterlingspund á viku, þá er ekki langt í gjalþrot Íslands. Það er ljóst.

Indianapolis Colts með Peyton Manning í broddi fylkingar tryggðu sér sæti í leiknum um Ofurskálina á sunnudagskvöld í hreint út sagt stórkostlegum leik.Það þarf ekki að fjölyrða um þann gríðarlega persónulega sigur sem áðurnefndur Manning vann með þessum áfanga. Nú er bara að klára dæmið og koma sér endanlega á spjöld sögunnar. Væri reyndar til í að skipta á HM í handbolta og West Ham - Liverpool, fyrir miða á þann leik.

NG


Skammgóður vermir

Æfingu dagsins er lokið. Ákveðið var að hafa hana í léttari kantinum. Hitað upp í 30 mínútur á þrekhjóli og svo var hugmyndin að reyna aðeins á fótinn og hlaupa 5 km á bretti. Funheitur eftir hjólið var byrjað að hlaupa og hraðinn stilltur á 14 km pr. klst. Gekk vel og 5 km lokið á nýju Íslandsmeti, það var a.m.k. það sem ég hélt. Tíminn 17 mínútur og 24 sekúndur.

Gríðarlega sáttur steig ég af brettinu og sýndi Vallibal Lecter sem staddur var í ræktinni á sama tíma afraksturinn. Nú mátti Kári Steinn fara að vara sig, Antilópan á hraðri leið í form. Púlsinn var í um 180 slögum og ekki hægt að ætlast til þess að maður hugsi skýrt undir slíkum kringumstæðum.

Þegar um fór að hægjast fóru að renna á mig tvær grímur, þetta gat ekki verið. Á meðan teygt var fór ég að reikna í huganum. 14 km pr. klst er sama og 7 km pr. hálftíma, það gerir rúmlega 4 mínútur og 15 sekúndur pr. kílómeter. Gerði mér þá grein fyrir því að Íslandsmetið sem ég taldi mig hafa sett fékk ekki staðist.

Engu að síður góður sprettur og ekki fann ég mikið til í fætinum. Það verður samt að segjast að hlaupum á bretti er ekki hægt að jafna við útihlaup, jafnvel þó brettið hafi verið stillt í 1 gráðu halla. Maður lyftir bara upp skönkunum og færibandið sér um rest.

Vinsamlegum tilmælum er beint til Þrekhúss fólks um að stilla brettin uppá nýtt svo koma megi í veg fyrir frekari misskilning af þessu tagi.

 

NG


Klassísk dægurlög

Ég var spurður að því um daginn hvort ég væri samkynhneigður. Þannig var að gestur á heimili mínu hafði komist yfir lagalistann á i-pod undirritaðs. Gesturinn horfði á mig með skelfingarsvip þegar ég kom aftur inn í stofu eftir klósettferð og varpaði upp áðurnefndri spurningu. Ég vissi náttúrulega ekki hvaðan á mig stóð veðrið, hélt að lögin á i-podinum mínum væru flottustu lögin í dag. Tæknilegir þættir hafa hingað til ekki talist til minna sterkari hliða. Ég var því mjög sáttur þegar mér tókst að troða 11 gaumgæfilega völdum dægurlögum inná tækið.

Lítum á lagalistann:

As long as I love you - Backstreet boys

I want it that way - Backstreet boys

Með þér - Ragnheiður Gröndal

Wisemen - James Blunt

Good by my lover - James Blunt

Think it over - Jóhann Helgason

Never ever let you go - Rollo & King

Fly on the wings of love - Olsen bræður

Nína - Stebbi og Eyfi

Þú fullkomnar mig - Sálin hans Jóns míns

Okkar nótt - Sálin hans Jóns míns

 

Þess ber að geta að gesturinn á heimili mínu þennan dag var töluvert yngri en höfundur. Hverskyns músík hlustar sú kynslóð sem á eftir minni kemur? Getur verið að þessi klassísku dægurlög séu komin fram yfir síðasta söludag? Ef svo er þá er höfundur það einnig, mér finnst alltaf jafngaman að hlusta á i-podinn minn.

 

NG


Rúmlega 15 "stones"

Æfing gærdagsins var góð. Ekki náðist þó alveg að hjóla í 2 tíma, lét 100 mínútur duga. Var kominn með náladofa í fæturna. Þetta er greinilega hin besta brennsla. Fór á vigtina í morgun eftir að hafa haldið til á hjólinu nánast í viku samfleytt. 96,2 kg sýndi vigtin, eða 15.15 steinar að hætti Breta, sem sagt 7 kg farinn frá 3. nóvember. Það hlítur að gera hlaupin léttari, allavega væri ég ekki til í að hlaupa með 7 kg þungan poka í eftirdragi. Það myndi gera manni erfitt fyrir.

 

NG


Hugleiðingar

Ég hef mjög gaman af því að lesa hugleiðingar hlaupagikkja. Á bloggsíðunni "dagbók ritarans" skrifar Gísli Ásgeirsson um hlaup og allt sem þeim tengist. Gísli og hans félagar hlaupa oft og mikið í einu. Síðastliðinn laugardag voru t.d. lagðir að baki 27 km í mikilli ófærð þar sem snjórinn var vaðinn uppá miðja ökkla. Yfirleitt er ekki farið út fyrir minna en 15 km í einu og vikurnar skila þ.a.l. mörgum kílómetrum í hús.

Þegar lesið er um slíka jaxla er óhjákvæmilegt að hugleiða hversu lang maður á enn í land. Hálfmaraþon í síðustu viku fór langt með að ganga frá mér og hlaup hafa legið á hakanum síðan vegna álagsmeiðsla, sem þó var búið að vara við. Hefur síðan verið hamast á þrekhjóli af miklum móð, en það jafnast ekki á við hlaupin sjálf. Vonandi fer þó að styttast í endurkomu á götur bæjarins því tíminn fer að verða naumur, ekki nema 60 dagar til stefnu. Það verður þó að halda fínni línu í prógraminu svo ekki komi til frekari meiðsli. Kannski gott að blanda hlaupum saman við hjól og fleira.

Í kvöld er stefnan að hjóla í 2 klst í einni beit á 85-90 snúningum á mínútu . Sjáum til hverning það gengur.

 

NG


Peter Crouch og fleira

Jæja, þá er hafin ný vika. Ekki hægt að segja annað en að hún byrji ágætlega, það er ekki laust við að maður sé laus við hið klassíska mánudagsþunglyndi. Það er nokkuð ljóst að það að göslast áfram á hlaupum eða á hjóli virkar mjög vel sem gegn skammdegisþunglyndinu.

Í dag var farið á tvær æfingar, annarsvegar í ræktina og hjólað í 70 mínútur. Þori ekki enn í hlaup þar sem vinstri fótur er aumur, vil ekki hætta á að lengja tímann á hliðarlínunni. Hinsvegar var farið á golfæfingu í Básum. Kom skemmtilega á óvart hvað maður tekur miklum framförum við að sleppa því að æfa.

Í gær var vakað fram á nótt, tilefnið úrslitakeppni NFL. Að mati undirritaðs besta sjónvarpsefni sem í boði er. Leikirnir voru ekki af verri endanum og úrslit réðust í framlengingu og á síðustu sekúndum. Mínir menn Colts léku á laugardag og sigruðu annan leikinn í röð á frábærum varnarleik. Eitthvað sem ekki hefur borið mikið á fram til þessa. Það er deginum ljósara að þeir sigra Superbowl ef vörnin heldur áfram á sömu braut.

Ánægjulegt var einnig að sjá Peter Crouch félaga minn færa knattspyrnuna á annan stall þegar hann afgreiddi einn síns liðs drengina í  Watford í hádeginu á laugardag. Þar er augljóslega á ferð besti knattspyrnumaður heims. Þórður Ágústsson hefur unnið sér ínn fría áskrift að Fréttablaðinu en hann var með rétt svar við getraun föstudagsins (Peter Crouch).Blaðið mun hér eftir liggja í póstkassanum þegar hann vaknar. Innilega til hamingju Þórður. 

 

NG

 

 


Getraun dagsins

GFQ2056J

 

 

Þorvaldur Örlygsson, sem er byrjaður að leika á ný á Íslandi eftir að hafa leikið með Nottingham Forest, Stoke og Oldham í Englandi, átti góðan leik í vörninni hjá KA. Hér sækir ???????? að honum.

Sá fyrsti sem birtir rétt svar í athugasemda dálknum hefur unnið sér inn fría áskrift að Fréttablaðinu.

NG



Hvorki fugl né fiskur

Ég tók æfingu dagsins í sundlauginni. Synti í hálftíma ca. 1.000 metra, nokkuð hressandi. Á leiðinni áttaði ég mig á því að ég er hvorki fugl né fiskur. Staðreyndin er sú að ég er nánast ósyndur og vatnshræddur. Að auki er ég ólýsanlega flughræddur. Það segir sig því sjálft að máltækið á vel við um undirritaðan.

NG


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband