Færsluflokkur: Dægurmál

Erfitt, mjög erfitt

Æfingu dagsins er lokið. Hraðaæfing sem fór fram í Laugardal undir handleiðslu lærimeistarans. Léttir 3 km í upphitun, því næst 4 x 800 m sprettir með 2,30 mín joggi á milli. Í lokin var svo joggað niður 3 km. Samtals um 10 km með öllu.

Fyrstu 800 á 2,56 mín sem er 3,40 pace. Önnur umferð á 3,03 mín sem gerir tæplega 3,49 hraða. Númer 3 á 3,12 mín sem gerir 4,00 mín. Síðasti á 3,16 sem gerir 4,05 mín.

Ekki er ég nú alveg nógu fróður til að lesa vel úr þessu, en greinilegt er þó að það vantar uppá úthald í sprettum. Kemst miklu hraðar en þetta en spring alltof fljótt á limminu. Gaman verður að taka þetta aftur eftir nokkrar vikur og sjá bætingu. Það er að segja ef maður þorir í þetta aftur, þetta er alger pína, samt gott eftirá.

Gaman að því að enginn annar en Hannes Páll Guðmundsson var á hliðarlínunni og hvatti mig til dáða. Hann og Þorvaldur Geirsson heiðursmaður voru að stjórna hlaupaæfingu á vegum slökkviliðsins.

Var ekkert að nefna hálfmaraþonið um helgina þar sem ég veit að þjálfarinn er því mótfallinn, stelst bara í það og vona að ég fari mér ekki að voða. Ég á nú hvort eð er að hlaupa 20 km á laugardaginn, fer bara rólega, pjakka þetta eins og ritarinn segir.

 

NG


Ég er líka manneskja

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að karlmenn eru líka manneskjur. Mikið er ég orðinn þreyttur á þessu bulli.

 

NG


Hálft í Marsþoni, vonandi

Ekkert hlaup í dag. Fer í rækt eftir vinnu og svo á golfæfingu í kvöld. Á morgun er svo hraðaæfing hjá Sigurði P. Ég ætla að væla svolítið í honum um að fá að hlaupa hálft á laugardag í Marsmaraþoni, á hvort eð er að hlaupa 20 km þann dag samkvæmt prógrami.

NG


Föstudagurinn langi og laugardagur

Ákvað að hliðra aðeins til í prógraminu og fór 18 km í gær. Ástæðan var afmælisveisla í gærkvöldi og hafði ég nokkrar áhyggjur af því að heilsan yrði ekki uppá það besta í dag. Var mjög léttur og fór þessa ´18 á 1,29,37 mín, 4,59 pace. Átti nóg inni og síðustu 3 km voru á 4,42, - 4,35 og 4,25 mín.

Rúllaði svo 7,5 i morgun með sjálfum Valsaranum, það var ágætt. Vikan endar þá í 57 km sem er aðeins meira en prógram segir til um. Best er að ég er alveg laus við kvefið.

 

NG


Yfir leyfilegum endorfín mörkum

Við Sigurður rúlluðum létta 12 kílómetra í hádeginu. Erum eins og gefur að skilja báðir endurnærðir og eiturhressir. Endorfínið dugar okkur langt inn í daginn. Söknum þess reyndar að félögum í hádegisklúbbnum skuli ekki fjölga þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar hinna ýmsu aðila.

Í bílnum á leiðini í vinnuna aftur setti Sigurður út á aksturslag undirritaðs. Hugleiddum í framhaldinu hvað hefði gerst ef laganna verðir hefðu stöðvað ökumanninn. Ætli það sé hægt að vera langt yfir leyfilegum endorfín mörkum?

 

NG


Að komast í gang

Góð æfing eftir vinnu. Byrjaði á rólegri upphitun fyrstu 2 km. Eftir góðar teygjur var farinn Neshringur á góðu gasi, fór hann á 13,57 mín við mjög óhagstæðar aðstæður, bálhvasst. Síðasta tímataka á þessum hring var 30. desember 15,15 mín þannig að bætingin er mjög góð. Rúllaði svo 4 km í viðbót, þar af síðasta kílómeterinn á 4,21 mín. Samtals 9 km.

 

NG


Árshátíð og recovery

Helgin var skemmtileg en eftirköstin ekki. Árshátíð Dúddans hófst í hádeginu á laugardag of stóð fram til kl. 6 á sunnudagsmorgun. Síðasta stopp var Cafe Kósý í Austurstræti þar var mér tjáð að ég væri fallegur og hægra eyra mitt var sleikt. Þetta var reyndar huggulegasti drengur en við náðum ekki saman að þessu sinni, kannski síðar.

Af skiljanlegum ástæðum verður liðurinn "einingar í vikunni" í fríi þessa vikuna. Talning var ekki nógu nákvæm. Annars hélt ég að maður væri hættur þessari vitleysu, en lengi er von á einum.

Var enn slappur í vinnunni í dag en náði að hrista mesta skítinn af mér núna seinni partinn með 10 kílómetra hlaupi. Þessi vika verður vonandi betri en sú síðasta í hlaupalegum skilningi. Kvefpestin gerði það að verkum að vikan varð einungis uppá 31 km.

 

NG


Kvefpest

Hef verið slappur síðustu daga. Sleppti fimmtudagsæfingu vegna kvefpestar. Ætlaði að reyna að hrista þetta af mér áðan og fór á brettið í ræktinni. Hljóp 11 km en var þá orðinn verulega slappur. Nú er ég ekki frá því að mér hafi tekist að verða almennilega veikur. Maður er svo skynsamur, kemur í ljós í kvöld eða fyrramálið. Það væri hrikalegt að missa af árshátíð Barbeque klúbbsins Dúdda sem hefst í hádeginu á morgun og stendur fram eftir kvöldi.

 

NG


Febrúar

Febrúar, uppgjör.

Eftir að hafa verið kyrrsettur á þrekhjóli megnið af janúar vegna meiðsla þá er ég nokkuð sáttur við þróunina í febrúar. Náði samtals 17 hlaupaæfingum frá 6 degi mánaðarins. Á þeim æfingum voru samtals farnir 171,60 km. Er kominn í fast prógram sem hjálpar mikið til, annars æðir maður áfram eins og flóðhestur þangað til meiðsli valda kyrrsetningu. Næstu vikur eru spennandi þar sem álagið fer smám saman vaxandi og verður gaman að sjá hvernig skankarnir bregðast við því. Spurning hvernig maður fer að í júlí þegar vikurnar verða í 100 km +, það verður ekki ýkja mikið golf á þeim tíma. Kannski spurning um að taka morgunæfingar á þeim tíma.

Vigtin sýnir 93-94 kg, samtals 10-11 kg farin síðan í nóvember. Þjálfarinn vill fá mig niður í 88 í rólegheitum. Þegar því verður náð mun manni væntanlega svipa til Eþíópíumanna, sem er mjög gott þegar langhlaup eru annarsvegar.

Hádegisæfingar voru teknar upp í mánuðinum, mjög hentugt tvisvar í viku og komið til að vera.

 

NG

 


Ironman

http://www.youtube.com/watch?v=tRB1p89k7_I

 Þetta er svakalegt, varð hræddur við að horfa á þetta. Ætla rétt að vona að maður lendi aldrei í þessu.

 

NG


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband