Færsluflokkur: Dægurmál

Dagur að kveldi kominn

Ýmsu áorkað í dag. Fór meðal annars í segulómskoðun og röntgenmyndatöku, niðurstaðan ætti að liggja fyrir eftir helgi. Tók létta æfingu í ræktinni, þrekhjóli í 40 mínútur var fylgt eftir með léttum lyftingum og magaæfingum.

Er á leið í meistaramót DM í keilukasti, einhver sú alleiðinlegasta íþrótt sem ég hef prufað. Kæmi mér samt ekki á óvart að sigur verði raunin. Annars er ég að spá í að labba út í keiluskónum, hef alltaf verið veikur fyrir slíkum skóbúnaði, bara töff.

 

NG


Flottar buxur

Gaman að sjá að fleiri fyrirtæki eru að hasla sér völl á sviði hlaupafatnaðar. Maður skellir sér á nokkur pör frá Gerbe þegar spandexið kemur á markað.

 

NG


mbl.is Sokkabuxur fyrir karlmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki var það Powerade

Stefndi að Powerade hlaupi í kvöld. Guggnaði á síðustu stundu af ótta við meiðslin. Þar sem ég var búinn að gíra mig upp andlega bjó ég til mitt eigið keppnishlaup. Keypti mér rauðan Gatorade sem mér finnst betri. Lagði svo upp í Gamlárshring með bætingu á tíma í huga. Það tókst mér til mikillar ánægju og það sem meira er að 50 mínútna múrinn var rofinn, 49.19 mín. Siggi Helga mætti mér við marklínuna sem varð enn til að auka ánægjuna.

Óreglusamir vinir mínir hafa platað mig á öldurhús fyrir samkynhneigða Q Bar í kvöld. Það passar ágætlega inní prógramið að taka eins og þrjár krúsir í kolvetnahleðslu. Er jú búinn að taka vel á því síðustu þrjá daga.

 

NG


Meiðslapési

Magga hleypur sennilega ekki mikið á næstunni. Spurning hvernig þessi meiðsli eru tilkomin. Veit það fyrir víst að hún reykir tvo pakka á dag af dönsku gæða rettunum Prince.

NG


mbl.is Danadrottning fékk nýjan hnélið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega hátíð

Þá er undirritaður kominn úr fríi.

Það virðist vera að rofa til í hinum erfiðu meiðslum. Hef verið í sjúkraþjálfun undanfarnar vikur með litlum árangri. Fer í röntgen og segulómskoðun á föstudag og fæ þá vonandi úr því skorið hvað er að angra mig. Það sagði mér fróður maður og einhver besti langhlaupari íslandssögunnar að líklegt væri að ég væri með sprungu í beini. Minnir að hann hafi kallað það "mass factor". Ég í þrjósku minni fór 5 km síðastliðinn föstudag til að athuga með ástandið. Var ekki góður eftir það en kældi vel og dældi í mig bólgueyðandi. Hvíldi síðan fram á þriðjudag og prófaði aftur. Og viti menn enginn verkur, fór 10 km Gamlárshring á 51.52 mín í hálkunni. Kældi vel og bruddi íbúfen í dag og fór svo aftur í 10 núna rétt áðan. Ekki bólar enn á verkjum. Vonandi kemur svo myndatakan vel út á föstudag og málið úr sögunni.

Annars hélt ég til í Bretlandi í síðustu viku. Fór að sjá tvo leiki, meðal annars leik West Ham og Liverpool. Hitti þar hina mætu menn Rick Parry og David Moores í chairman suite. Við ræddum mál félagsins og ég ráðlagði þeim frá því að ganga til samninga við DIC arabana. Strax morguninn eftir voru fréttir í bresku pressunni um að viðræðum hefði verið slitið. Ánægjulegt að málið sé nú í höfn og klúbbnum mun farnast mun betur undir eignarhaldi herra Gilet og herra Hicks.

Fórum líka að sjá Arsenal og Tottenham á Emirates. Ótrúlega glæsilegt mannvirki þessi nýji völlur þeirra Arsenalmanna. Við vorum samt nokkuð skelkaðir á vellinum, hatrið milli þessara liða er gífurlegt. Lausir hlutir flugu milli hólfa í stúkunni og við læddum okkur út 10 mín fyirir leikslok til að sleppa við uppþotin eftir leik í þessu viðbjóðslega hverfi þar sem völlurinn er staðsettur. Annars heppnaðist ferðin geysilega vel fyrir utan flughræsluna sem angraði mig þó nokkuð. Reyndar svo mikið að ég ákvað að fara aldrei aftur til útlanda. Spurning hvað sú ákvörðun heldur lengi.

Var geysilega feginn að vera staddur í Englandi þegar handboltaleikurinn við Danina fór fram. Er ansi hræddur um að ég hefði eyðilagt einhverja muni á heimili mínu ef horft hefði verið á leikinn.

Colts unnu leikinn um Ofurskálina nokkuð örugglega. Frábært fyrir Peyton Manning að losa sig við "tapara" stimpilinn. Finnst líklegt að þeir geti bætt nokkrum skálum í hattinn á næstu árum.

 

Gott í bili.

 

NG


Þetta er helst

Vinna var stunduð frá níu til fjögur. Því næst var horft á handboltann eins og flestir aðrir. Að leik loknum var farið í Þokkabót og hjólað í dágóða stund. 1175 hitaeiningum brennt á um 75 mínútum skv. Polar RS 400 græjunni. Fóturinn enn í steik. Annað ekki að frétta.

 

NG


Skoðanakönnun

Eins og mjög glöggir lesendur geta séð þá hefur verið bætt einu orði inn í textann ofan við skoðanakönnunina hér til vinstri. Þetta er einungis gert þar sem það virðist henta mér betur á þessari stundu.

NG


Hrindingar, veður, geðsveiflur og fleira

Ég öfgafullur einstaklingur. Ég er latur. Ég er duglegur.Ég er sorgmæddur og ég er glaður. Ég er klofinn persónuleiki. Ég er eins og íslenska veðrirð, er ekki í tísku að segja það núna?

Margt hefur drifið á daga mína frá síðustu færslu. Eitthvað hef ég reynt að puða á þrekhjólinu en það er margt skemmtilegra. Mig er farið að þyrsta í að hlaupa aftur. Á föstudag fékk ég þann úrskurð frá sjúkraþjálfara að ég þyrfti að sleppa hlaupum í 3-4 vikur til viðbótar. Á meðan verð ég að gera mér hjólið að góðu. Í framhaldinu væri hugsanlega skynsamlegra að reyna að fara hægar í sakirnar og byggja sig upp í rólegheitum. Væri gaman að prófa að gera eitthvað á eðlilegum hraða. Hálft gæti þurft að duga í Marsþoni.!!!!!!!! Nú veit ég reyndar að einhverjir kunna að kætast, en það verður að hafa það.

Ég hef farið í gegnum miklar geðsveiflur eins og flestir Íslendingar aðrir síðustu daga. Ástæðan, jú gengi landsliðsins í hrindingum. Íþrótt sem örfáar þúsundir stunda á heimsvísu. Hvernig getur heil þjóð verið svona steikt, að mér meðtöldum? Eftir tapið á móti arfaslökum Úkraínumönnum var ég einn af þeim sem snéri baki, ekki bara gegn liðinu, heldur líka gegn íþróttinni. Hverjum er ekki sama um hrindingar? Maður píndi sig svo í að horfa á Frakkaleikinn og viti menn þá sleppti ég mér alveg í gleðinni yfir því hve Íslendingar eru góðir í hrindingum. Nú er staðan orðin þannig að ég vil ólmur komast til Þýskalands og taka þátt í ævintýrinu, þrátt fyrir ólýsanlega flughræðslu. Ef við töpum svo á morgun þá eru þetta jú bara hrindingar, einkar hentugt.

Annars hefur mér verið boðið til Lundúna um næstu helgi í þeim tilgangi að horfa á tvo kappleiki í öllu göfugri íþrótt. Ég sveiflast reyndar alveg jafn mikið í skoðunum á þeim kanti. Eiður Smári var frábær í haust, einn af allra bestu leikmönnum heims. Nú er hann landanum til skammar, bara latur og frjálslega vaxinn. Í haust vildi ég að Rafa Benites yrði rekinn, hann er bara vitleysingur. Nú er Rafa Benites lang besti stjórinn í boltanum, á því leikur enginn vafi. Leikirnir sem í boði eru West Ham gegn Liverpool og Tottenham geng Arsenal. Ef satt er að Eggert Magnússon og félagar ætli að greiða miðlungsmanninum Lucas Neill 60.000 sterlingspund á viku, þá er ekki langt í gjalþrot Íslands. Það er ljóst.

Indianapolis Colts með Peyton Manning í broddi fylkingar tryggðu sér sæti í leiknum um Ofurskálina á sunnudagskvöld í hreint út sagt stórkostlegum leik.Það þarf ekki að fjölyrða um þann gríðarlega persónulega sigur sem áðurnefndur Manning vann með þessum áfanga. Nú er bara að klára dæmið og koma sér endanlega á spjöld sögunnar. Væri reyndar til í að skipta á HM í handbolta og West Ham - Liverpool, fyrir miða á þann leik.

NG


Skammgóður vermir

Æfingu dagsins er lokið. Ákveðið var að hafa hana í léttari kantinum. Hitað upp í 30 mínútur á þrekhjóli og svo var hugmyndin að reyna aðeins á fótinn og hlaupa 5 km á bretti. Funheitur eftir hjólið var byrjað að hlaupa og hraðinn stilltur á 14 km pr. klst. Gekk vel og 5 km lokið á nýju Íslandsmeti, það var a.m.k. það sem ég hélt. Tíminn 17 mínútur og 24 sekúndur.

Gríðarlega sáttur steig ég af brettinu og sýndi Vallibal Lecter sem staddur var í ræktinni á sama tíma afraksturinn. Nú mátti Kári Steinn fara að vara sig, Antilópan á hraðri leið í form. Púlsinn var í um 180 slögum og ekki hægt að ætlast til þess að maður hugsi skýrt undir slíkum kringumstæðum.

Þegar um fór að hægjast fóru að renna á mig tvær grímur, þetta gat ekki verið. Á meðan teygt var fór ég að reikna í huganum. 14 km pr. klst er sama og 7 km pr. hálftíma, það gerir rúmlega 4 mínútur og 15 sekúndur pr. kílómeter. Gerði mér þá grein fyrir því að Íslandsmetið sem ég taldi mig hafa sett fékk ekki staðist.

Engu að síður góður sprettur og ekki fann ég mikið til í fætinum. Það verður samt að segjast að hlaupum á bretti er ekki hægt að jafna við útihlaup, jafnvel þó brettið hafi verið stillt í 1 gráðu halla. Maður lyftir bara upp skönkunum og færibandið sér um rest.

Vinsamlegum tilmælum er beint til Þrekhúss fólks um að stilla brettin uppá nýtt svo koma megi í veg fyrir frekari misskilning af þessu tagi.

 

NG


Klassísk dægurlög

Ég var spurður að því um daginn hvort ég væri samkynhneigður. Þannig var að gestur á heimili mínu hafði komist yfir lagalistann á i-pod undirritaðs. Gesturinn horfði á mig með skelfingarsvip þegar ég kom aftur inn í stofu eftir klósettferð og varpaði upp áðurnefndri spurningu. Ég vissi náttúrulega ekki hvaðan á mig stóð veðrið, hélt að lögin á i-podinum mínum væru flottustu lögin í dag. Tæknilegir þættir hafa hingað til ekki talist til minna sterkari hliða. Ég var því mjög sáttur þegar mér tókst að troða 11 gaumgæfilega völdum dægurlögum inná tækið.

Lítum á lagalistann:

As long as I love you - Backstreet boys

I want it that way - Backstreet boys

Með þér - Ragnheiður Gröndal

Wisemen - James Blunt

Good by my lover - James Blunt

Think it over - Jóhann Helgason

Never ever let you go - Rollo & King

Fly on the wings of love - Olsen bræður

Nína - Stebbi og Eyfi

Þú fullkomnar mig - Sálin hans Jóns míns

Okkar nótt - Sálin hans Jóns míns

 

Þess ber að geta að gesturinn á heimili mínu þennan dag var töluvert yngri en höfundur. Hverskyns músík hlustar sú kynslóð sem á eftir minni kemur? Getur verið að þessi klassísku dægurlög séu komin fram yfir síðasta söludag? Ef svo er þá er höfundur það einnig, mér finnst alltaf jafngaman að hlusta á i-podinn minn.

 

NG


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband