Færsluflokkur: Dægurmál

Rúmlega 15 "stones"

Æfing gærdagsins var góð. Ekki náðist þó alveg að hjóla í 2 tíma, lét 100 mínútur duga. Var kominn með náladofa í fæturna. Þetta er greinilega hin besta brennsla. Fór á vigtina í morgun eftir að hafa haldið til á hjólinu nánast í viku samfleytt. 96,2 kg sýndi vigtin, eða 15.15 steinar að hætti Breta, sem sagt 7 kg farinn frá 3. nóvember. Það hlítur að gera hlaupin léttari, allavega væri ég ekki til í að hlaupa með 7 kg þungan poka í eftirdragi. Það myndi gera manni erfitt fyrir.

 

NG


Hugleiðingar

Ég hef mjög gaman af því að lesa hugleiðingar hlaupagikkja. Á bloggsíðunni "dagbók ritarans" skrifar Gísli Ásgeirsson um hlaup og allt sem þeim tengist. Gísli og hans félagar hlaupa oft og mikið í einu. Síðastliðinn laugardag voru t.d. lagðir að baki 27 km í mikilli ófærð þar sem snjórinn var vaðinn uppá miðja ökkla. Yfirleitt er ekki farið út fyrir minna en 15 km í einu og vikurnar skila þ.a.l. mörgum kílómetrum í hús.

Þegar lesið er um slíka jaxla er óhjákvæmilegt að hugleiða hversu lang maður á enn í land. Hálfmaraþon í síðustu viku fór langt með að ganga frá mér og hlaup hafa legið á hakanum síðan vegna álagsmeiðsla, sem þó var búið að vara við. Hefur síðan verið hamast á þrekhjóli af miklum móð, en það jafnast ekki á við hlaupin sjálf. Vonandi fer þó að styttast í endurkomu á götur bæjarins því tíminn fer að verða naumur, ekki nema 60 dagar til stefnu. Það verður þó að halda fínni línu í prógraminu svo ekki komi til frekari meiðsli. Kannski gott að blanda hlaupum saman við hjól og fleira.

Í kvöld er stefnan að hjóla í 2 klst í einni beit á 85-90 snúningum á mínútu . Sjáum til hverning það gengur.

 

NG


Peter Crouch og fleira

Jæja, þá er hafin ný vika. Ekki hægt að segja annað en að hún byrji ágætlega, það er ekki laust við að maður sé laus við hið klassíska mánudagsþunglyndi. Það er nokkuð ljóst að það að göslast áfram á hlaupum eða á hjóli virkar mjög vel sem gegn skammdegisþunglyndinu.

Í dag var farið á tvær æfingar, annarsvegar í ræktina og hjólað í 70 mínútur. Þori ekki enn í hlaup þar sem vinstri fótur er aumur, vil ekki hætta á að lengja tímann á hliðarlínunni. Hinsvegar var farið á golfæfingu í Básum. Kom skemmtilega á óvart hvað maður tekur miklum framförum við að sleppa því að æfa.

Í gær var vakað fram á nótt, tilefnið úrslitakeppni NFL. Að mati undirritaðs besta sjónvarpsefni sem í boði er. Leikirnir voru ekki af verri endanum og úrslit réðust í framlengingu og á síðustu sekúndum. Mínir menn Colts léku á laugardag og sigruðu annan leikinn í röð á frábærum varnarleik. Eitthvað sem ekki hefur borið mikið á fram til þessa. Það er deginum ljósara að þeir sigra Superbowl ef vörnin heldur áfram á sömu braut.

Ánægjulegt var einnig að sjá Peter Crouch félaga minn færa knattspyrnuna á annan stall þegar hann afgreiddi einn síns liðs drengina í  Watford í hádeginu á laugardag. Þar er augljóslega á ferð besti knattspyrnumaður heims. Þórður Ágústsson hefur unnið sér ínn fría áskrift að Fréttablaðinu en hann var með rétt svar við getraun föstudagsins (Peter Crouch).Blaðið mun hér eftir liggja í póstkassanum þegar hann vaknar. Innilega til hamingju Þórður. 

 

NG

 

 


Getraun dagsins

GFQ2056J

 

 

Þorvaldur Örlygsson, sem er byrjaður að leika á ný á Íslandi eftir að hafa leikið með Nottingham Forest, Stoke og Oldham í Englandi, átti góðan leik í vörninni hjá KA. Hér sækir ???????? að honum.

Sá fyrsti sem birtir rétt svar í athugasemda dálknum hefur unnið sér inn fría áskrift að Fréttablaðinu.

NG



Hvorki fugl né fiskur

Ég tók æfingu dagsins í sundlauginni. Synti í hálftíma ca. 1.000 metra, nokkuð hressandi. Á leiðinni áttaði ég mig á því að ég er hvorki fugl né fiskur. Staðreyndin er sú að ég er nánast ósyndur og vatnshræddur. Að auki er ég ólýsanlega flughræddur. Það segir sig því sjálft að máltækið á vel við um undirritaðan.

NG


Vítavert kæruleysi

Töflufundurinn í gær leystist upp í tóma vitleysu. Þegar upp var staðið höfðu runnið niður 7 ölseiningar. Það er ljóst að slík neysla er ekki til að bæta þrek. Árangur fundarins var þó góður og farið var yfir leikskipulag og annað sem tengist langhlaupum. Endað var á því að leika ballskák þar sem aðstoðarmaðurinn hafði betur að lokum.

Nú er bara að drífa sig á æfingu og ná úr sér eitrinu. Ánægjulegur sigur hjá Liverpool eftir hörmungarnar undanfarið.

NG


Þú ert eitthundraðasti gestur síðunnar!!!!!!

Merkilegur áfangi náðist rétt í þessu í sögu þessarar síðu.

Eins og áður hafði verið auglýst hlýtur hundraðasti gesturinn flug með Icelandair að eigin vali á einhvern af áfangastöðum flugfélagsins.

Það var enginn annar en Nökkvi Gunnarsson sem var gestur númer eitthundrað. Hann getur vitjað vinningsins á skrifstofu félagsins að Eiðistorgi 9. Allar upplýsingar gefur Ellen Rut.

Til hamingju Nökkvi.


Grótta mætir KR á gervigrasvellinum við Suðurströnd á morgun

Á morgun kl. 11.30 árdegis, mætast Grótta og KR í meistaraflokki karla í knattspyrnu. Leikurinn fer fram á gervigrasvellinum við Suðurströnd. Löngu er orðið uppselt á leikinn en sá sem þetta skrifar getur útvegað nokkra miða fyrir áhugasama. Vinsamlegast skiljið eftir nafn og símanúmer í "athugasemdir" dálknum og ég mun hafa samband.

Þessi leikur verður í meira lagi fróðlegur, ekki síst fyrir þær sakir að Herra KR, Sigurður Helgason er orðinn aðstoðarþjálfari Gróttumanna. Siggi þekkir leikaðferðir KR-inga út og inn, það kæmi því ekki á óvart að Gróttumenn yrðu sterkir á heimavelli á morgun.

Annars er það að frétta að hjólað var á þrekhjóli í 60 mínútur nú rétt áðan. Þá var einnig lítillega tekið á lóðum. Hugsanlegt er að töflufundur fari fram síðar í kvöld á Ölveri, heimavelli aðstoðarmannsins.

 

NG


Reykjavíkurmaraþon 1985

Glöggir lesendur geta séð nafn þess sem þetta skrifar í Morgunblaðinu 27. ágúst 1985, þá 9 ára og 26 dögum betur. Tíminn 30.54 mín í 7 km, eitthvað sem maður myndi hoppa hæð sína yfir í dag. Menn þurfa reyndar að vera ansi glöggir, ég náði ekki myndinni stærri.Þetta er eina RM undirritaðs til þessa dags.Annars er það að frétta af undirrituðum að nákvæm læknisskoðun átti sér stað í morgun, þar sem farið var í hjartalínurit o.fl. Næst á dagskrá er að fara í samskonar línurit við áreynslu, það mun eiga sér stað n.k. miðvikudag kl. 11.20. Þessar skoðanir eru einungis gerðar í forvarnarskyni svo maður detti nú ekki niður dauður í einhverju hlaupinu.

Verkir eru á undanhaldi eftir hlaup miðvikudagsins og farið verður á þrekhjól í kvöld.

400622_0893_426255_0005

 

NG


Reykjavíkurmaraþon 1986

Skemmtilegur þessi veraldarvefur. Rakst á úrslit úr Reykjavíkurmaraþoni 1986 (7 km). 20 árum síðar er vel við hæfi að kíkja betur á það.

Piltar 12 ára og yngri

5   33:26   Sigurður Óli Hákonarson        1975    (var í KR með undirrituðum á þessum tíma)

7   34:21   Hannes Páll Guðmundsson        1975 (viðskiptafræðingur og sjúkraflutningamaður af Nesinu)

8   34:22   Heimir Jakob Þorfinnsson       1975 (bróðir Júlla, starfar sem málari)

10   35:29   Einar Baldvin Árnason          1974 (KR-ingur, lögfræðingur og sonur Árna Urriða)

29   37:37   Hafsteinn Guðmundsson          1975 ( hitti Hadda á Jólatrésskemmtun um daginn, hann hljóp hálft maraþon í svokölluðu Brúarhlaupi í DK fyrir 2 árum)

42   39:28   Mikael Nikulásson              1974 (Kr-ingur og framkvæmdastjóri fasteignasölu hér í borg)

43   39:29   Brynjólfur Bjarnason           1974 (knattspyrnumaður úr Selfoss, ÍR og fleiri liðum. Hlítur að hafa verið svekkjandi að vera 1 sek á eftri Mikka)

48   40:09   Gylfi Einarsson                1978 (knattspyrumaður í Leeds United)

50   40:25   Símon Geir Þorsteinsson        1975 (er ekki Símon að kenna íþróttir í Való eða Mýró?)

51   40:36   Ásmundur Haraldsson            1975 (Hvíta Perlan, langhlaupin voru aldrei hans sterkasta hlið. Meira fyrir að gæla við boltann)

 

 Piltar 13 til 17 ára

53   35:34   Rúnar Geir Gunnarsson          1973 (keppti í flokki öldunga. Tíminn hefði skilað honum í 12. sæti í flokki 12 ára og yngri)

Karlar 18 til 39 ára


  1   23:28   Ágúst Þorsteinsson             1957    (best þekktur sem Gústi smíðakennari. Var framkvæmdastjóri Reykjavíkurmaraþons til margra ára. Er nú hluti af leðurblökugenginu í Nesklúbbnum. Topp maður)

Mjög athyglisvert að hverfa 20 ár aftur í tímann. Sumir hafa unnið á, hjá öðrum hefur heldur hallað undan fæti. Allt eru þetta öðlingar og blessunarlega við hestaheilsu að því er ég best veit.

 

NG

 






« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband