Færsluflokkur: Dægurmál

Oft verið betri

Ástandið er ekkert sérstakt núna. Átti erfitt með að sofna í gær. Húsfreyjan gerði sér dælt við húsbóndann sem lá eins og skata og gat sig ekki hreyft.  Ekki oft sem slíkum kostaboðum er neitað. Svaf lítið í nótt vegna verkja. Liðband utanvert á hægra hné er aumt og táberg vinstri fótar einnig.

Það eru farnar að renna á mann margar grímur vegna verkefnisins framundan, spurning hvort einhver eigi hjólastól sem hann má missa? Það var þó vitað þegar ákvörðun var tekin að borgað yrði með blóði, svita og tárum. Sennilega er það eðlilegt að maður sé aðeins sár á líkama eftir svona langferð. Pottur í kvöld og hjól á morgun til að hlífa eymslum.

Annars er það að frétta að munntóbakið hefur fengið að víkja eftir 12 ára neyslu. Staðgengillinn er jórturleður, nikótínbætt, sem tuggið er af miklum móð með tilheyrandi vindverkjum.

NG


"þitt er mitt og mitt er mitt".

Rakst á aðra fyrir sömu kosningar. Eitthvað var ég sár út í Magnús Örn Guðmundsson "Manga" fyrrum stórhlaupara. Já og kannski núverandi stórhlaupara, þekki það ekki.

Leyfum þreyttum að hvílast!

 

Neslistinn, segir Nökkvi Gunnarsson, samanstendur af fólki sem annt er um umhverfi sitt.


null

Í Morgunblaðinu þann 9.5. s.l. brýst fram á ritvöllinn ungur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, Magnús Örn Guðmundsson, og fer mikinn. Ljóst er af máli frambjóðandans að hann hefur lært heima þau fræði sem móðurflokkurinn spinnur fyrir hverjar kosningar. Slæmt er til þess að vita að ungu fólki sé kennt að trúa því sem síður reynist rétt og því att fram með ranghugmyndir í þágu flokksins.

Í aðdraganda kosninga er öllu til tjaldað og haft er að leiðarljósi "þitt er mitt og mitt er mitt".

Í stuttu máli má segja að "höfundaréttur" sé hugtak sem ekki finnist í hugskotum sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi. Þessum orðum til stuðnings skal vitnað í skrif Magnúsar og dæmi nú hver fyrir sig.

"Náttúrugæði eru hér með eindæmum góð og skynsamlega staðið að skipulagsmálum þar sem ákvarðanir eru teknar að vel ígrunduðu máli í sátt við bæjarbúa."

Það er hinsvegar staðreynd að það hefur verið vilji sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi að byggja á vestursvæðunum svokölluðum og eyðileggja þar með þá sérstöðu sem Seltjarnarnesið hefur.

Í tvígang hafa þeir ákveðið uppá sitt eindæmi að eyðileggja þessa náttúruperlu þvert á vilja meirihluta bæjarbúa. Þessum áformum hefur hinsvegar verið afstýrt m.a. vegna söfnunar undirskrifta til verndunar svæðisins meðal bæjarbúa. Þessar aðgerðir voru alfarið á vegum Neslistans. Eftir stendur svo spurningin: Er þetta að taka ákvarðanir að vel ígrunduðu máli í sátt við bæjarbúa?

"Eitt mikilvægasta verkefni nýrrar bæjarstjórnar er að varðveita þann stöðugleika og ráðdeild sem einkennt hefur Seltjarnarnesbæ," segir Magnús einnig.

Hvaða stöðugleika? Skuldahöfuðstóll bæjarins hefur aukist um 27% á kjörtímabilinu. Í desember samþykkti meirihlutinn 5% raunhækkun á fasteignasköttum. Þeir lofa "fjölskylduvænni skattastefnu" á sama tíma og þeir innheimta hæstu leikskólagjöld sem þekkjast á höfuðborgarsvæðinu. Er þetta stöðugleikinn sem þarf að viðhalda? Í stærðfræðinni gefur mínus margfaldaður með nafna sínum plús. Þetta hafa sjálfstæðismenn á Nesinu lært.

Magnús talar einnig um sundrungu innan raða Neslistans. Tortryggnislexían hefur einnig skilað sér í uppeldinu.

Staðreyndin er hinsvegar sú að Neslistinn samanstendur af fólki sem annt er um umhverfi sitt og vill ýmislegt leggja í sölurnar til að varðveita þau gildi sem Seltjarnarnes hefur uppá að bjóða.

Í okkar hugum kallast fleira gildi en járnbentir steypukassar um víðan völl.

Ágætu Seltirningar. Í fjörutíu ár höfum við japlað á sömu tuggunni.

Á kjördag þann 25. maí býðst okkur næringarríkur aðalréttur í nafni Neslistans.

Þar fer samstilltur hópur fólks með hagsmuni manna og málleysingja í fararbroddi.

Höfundur skipar 5. sæti Neslistans.



 


Mikið vatn runnið til sjávar

Var að vafra á netinu og rakst á neðangreinda grein. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan, svo mikið að ég kaus þessa vindhana nú í vor. Reyndar er ég nokkuð ánægæur með greinina sem slíka.

Fimmtudaginn 23. maí, 2002 - Aðsent efni

Seltjarnarnes

Fálki eða vindhani á Seltjarnarnesi

 

D-listanum er ekki treystandi, segir Nökkvi Gunnarsson, þegar kemur að flóknum málum, flokkurinn þarf meira aðhald.


G5G5PJ9Q

 

ÞAÐ hefur margt óprúttið komið frá D-listanum í þessari kosningabaráttu. Afhjúpuð hafa verið slagorð þeirra um lægstu skattaálögur hvort heldur er í formi útsvara eða fasteignaskatta. Hver Seltirningur hefur nefnilega undanfarin ár greitt meira í útsvar en nokkur annar á höfuðborgarsvæðinu og við greiðum næsthæstu fasteignagjöldin.

D-listinn heldur ótrauður áfram með blekkingarnar. Lítum á nokkur dæmi.

Nú hafa þeir sett sig á stall og segjast hafa staðið "að verndun vestursvæðanna". Hver er reynslan? Á árunum 1994-8 börðust sjálfstæðismenn hart fyrir því að reisa verulega íbúðarbyggð við Nesstofu. Neslistinn barðist gegn þessum áformum og beitti sér fyrir glæsilegri undirskriftarsöfnun með þverpólitískri þátttöku. D-listinn gafst því upp á byggingaráformunum rétt fyrir kosningar 1998. Byggingaráráttan blundaði þó í þeim og vaknaði hressilega á síðasta ári þegar þeir ákváðu að reisa skyldi 4000 fm hjúkrunarheimili við Nesstofu, eða ígildi 20 einbýlishúsa. Skrýtin verndunarsjónarmið!

Nú réttlætir D-listinn ákvörðunina með því, að ekki hafi verið til annað land fyrir heimilið og útskýra tvístígandann varðandi staðsetningu með því að nú fyrst megi mögulega finna hjúkrunarheimili stað á Hrólfsskálamel.

Aftur fara þeir rangt með staðreyndir. Í allri umræðu um skipulag melsins sl. tvö ár lá ljóst fyrir, að byggingarsvæðið næst Íþróttamiðstöð og íbúðum aldraðra væri tilbúið til byggingar, því rífa mætti Ísbjarnarhúsið svo að segja án fyrirvara. Þar mátti því strax staðsetja hjúkrunarheimili. Aumlegt er þeirra yfirklór!

D-listinn reynir nú að búa til þá mynd af Neslistanum að hann berjist fyrir landfyllingum. Staðreyndin er sú, að það var að tilstuðlan varaforseta bæjarstjórnar, Ernu Nielsen, að heimildarákvæði um miklar landfyllingar sunnan megin á nesinu var sett inn í drög að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Það var sami aðili, ásamt bæjarstjóra, sem lagði til að frestað yrði tillögu Neslistans um gerð hringtorgs á gatnamótum Suður- og Norðurstrandar, þar sem landfylling Reykjavíkur myndi ná inn á Seltjarnarnes og því þyrftu umferðarmannvirki að bíða. Þá voru sjálfstæðismenn fylgjandi þeirri landfyllingu. Eftir þetta allt saman töldum við rétt að fá heimildarákvæði inn í svæðisskipulagið um landfyllingu norðan megin. Þetta var samþykkt einróma í bæjarstjórn. Sjálfstæðismenn hafa verið leiðandi í landfyllingarumræðu og aldrei greitt atkvæði gegn slíkum áformum.

Landfyllingar eru ekki á stefnuskrá Neslistans.

D-listinn, sem fer fram undir slagorðinu "festa", hefur snúist eins og vindhani þegar kemur að stóru málunum, þrátt fyrir fálkann í skjaldarmerki flokksins.

Vindhani getur aldrei orðið vegvísir.

D-listanum er ekki treystandi þegar kemur að flóknum málum, flokkurinn þarf meira aðhald. Það gerist einungis með því að tryggja Neslistanum þrjá menn í bæjarstjórn.

Höfundur skipar 5. sæti á Neslistanum.


21 góður, eða ekki?

Erfitt var það, lengsta hlaup ferils undirritaðs.

Allur lemstraður eftir 21 km á tímanum 1.59.44 klst. . Fyrstu tólf voru í lagi þrátt fyrir erfitt færi en restin var alger pína. Það er ljóst að ekki verður hlaupið á morgun, sund og pottur. Er jafnvel að hugsa um að verðlauna mig með einum bjór, svona líka til að hlaða á kolvetnaforðann. Það verður þó að sjálfsögðu ekki gert nema með samþykki aðstoðarmannsins, vonandi að hann gefi grænt ljós.

Annars þýðir ekkert að vera að væla, 42.198 km er takmarkið í mars. Það er þó ljóst að maður á ansi langt í land.

 NG


Allir Þonarar þurfa góðan aðstoðarmann

Í gær náðist samkomulag við Hauk Óskarsson um að hann myndi aðstoða undirritaðan í aðdraganda og á meðan á Marsþoni stendur.

Viðræður snérust um útfærslur á áðurnefndri aðstoð.

1) Skyldi hann verða í hlutverki hérans?

2) Skyldi hann hjóla með hlauparanum?

3) Skyldi hann keyra á milli staða fyrstu 20-30 km og hjóla svo með rest? Til vara ef snjóþungt verður, þá verður aðstoðarmaðurinn á snjósleða.

 

Kostur númer 1 kom ekki til greina. Afhverju?

Aðstoðarmaðurinn reif sig upp af rasgatinu ekki alls fyrir löngu og ákvað að fara út að hlaupa. Hann hafði teiknað upp hring í huganum sem lagður yrði að baki. Þegar þeim hring var um það bil að ljúka var minn maður enn með góða meðvitund og ákvað að bæta við hringinn ca. 40%. Þegar komið var að leiðarenda var meðvitund farinn að minnka, en góð samviska sló á allar þjáningar. Seinna um kvöldið í endorfínvímu var ákveðið að mæla hringinn með hjálp heimilisbifreiðarinnar. Mælirinn var núllstilltur og haldið af stað ásamt húsfrúnni, nú skyldi henni sýndur afrakstur hlaupaferðarinnar fyrr um daginn. Ekki varð þetta nú langur bíltúr hjá þeim skötuhjúum, mælirinn sýndi 1,3 km að bíltúrnum loknum.

Skýt reyndar hér inn efni tölvupósts frá Hauki honum til varnar:

Sæll Elskan,
Ekki má þó gera lítið úr útihlaupi mínu árið 2006 en það var jú 1,5 km.  Einnig má geta þess að ég vann á tímabili hjá heildsölunni LEPPIN en þar vann ég m.a. við undirbúning flestra langhlaupa á landinu með honum Pétri Frantz fyrrverandi formanns Félags Maraþonhlaupara (þú veist það náttúrulega). 
En það hefur eflaust margt vatn runnið til sjávar síðan og búið að breyta innihaldi flestra drykkjarstöðva úr vatni og/eða orkudrykk í bjór.
En rétt er það - ég hef lítið vit á langhlaupum - en þú hefur náttúrulega ekkert vit á orðinu "hóf" :)
Annars góður - fór í ræktina í gær - vigtin hefur aldrei farið svona hátt þannig að nú er ég búinn að lýsa bumbunni stríð á hendur!
kv,
Þinn vinur
Haukur

Númer 2 var einnig afskrifaður.

Þriðji kosturinn varð því fyrir valinu.

Eins og sést hér áð ofan á tölvupósti aðstoðarmanns, þá er hann nú ekki alveg ókunnur hlaupum og er að eigin sögn góðvinur Péturs Frantz fyrrverandi formanni Félags Maraþonhlaupara. Einnig hefur hann langa starfsreynslu að baki hjá Leppin sem ætti að geta nýst vel í svona hlaupi. Undirritaður ber því gríðarlegar væntingar til þessa samstarfs og býður Hauk formlega velkominn til starfa.

 Annars er það að frétta af þeim sem þetta skrifar að undanfarna daga hefur verið hjólað í ræktinni vegna minniháttar álagsmeiðsla. 50, 60, og 90 mínútur. Í kvöld er svo planið að taka 2 tíma útihlaup.

 

NG


Upphaf

Gott kvöld.

Ekki óraði mig fyrir því að ég ætti eftir að gerast bloggari, en ég ætla að prófa. Ég kann reyndar ekki að blogga,  en það hlítur að lærast eins og annað.

Ástæðan er öðru fremur sú að þann 3. nóvember 2006 byrjaði ég að hlaupa og það hefur ágerst svo mikið að ég get núorðið kallað mig hlaupafíkil með góðri samvisku. Þetta er allt hið undarlegasta mál, í upphafi var það kvöð að drífa sig af stað, en eftir því sem þrekið jókst fór þetta að verða þolanlegra og nú er svo komið að ég get ekki án þess verið að hlaupa í a.m.k. klukkutíma á dag. Nú hefur stefnan verið tekin á Maraþon, eða Þon eins og mjög reyndir hlauparar kalla það, helst strax í lok marsmánaðar ef undirbúningur verður meiðslalaus. Ég hef fundið prógram á annari blogsíðu,http://hlaup.malbein.net/blog/?page_id=301 nánar tiltekið "Dagbók ritarans" sem haldið er úti af Gísla Ásgeirssyni, ritara Félags Maraþonhlaupara sem greinilega er mikill snillingur, þekki ég þó manninn ekkert. Vonandi dugar það prógram til þess að koma manni í þann félagsskap áður en langt um líður.

Tilgangur þessarar síðu er meðal annars að hjálpa undirrituðum að halda utan um undirbúning fyrir áðurnefnt Þon og leyfa öðrum, ef einhverjir hafa áhuga, að fylgjast með. Ég er nefnilega orðinn það manískur að ég tala ekki orðið um annað en hlaup og get ímyndað mér að vinir og kunningjar séu orðnir þreyttir á því rausi. Nú ef ekki, geta menn og konur komið hingað inn og fylgst með hvernig gengur.

Eins og áður segir þá byrjaði þetta hlaupaball þann 3. nóvember 2006. Í fyrstu var lagður að baki svokallaður Neshringur, sem mælist 3400 metrar. Þetta var maður að silast á rúmum 20 mínútum til að byrja með. Fljótlega fór þó hraðinn að aukast og ástandið að batna eftir að hringnum var lokið. Að tveimur vikum liðnum langaði mig að prófa að fara lengra, fyrst 4 km, þá 5 km og þann 15. nóvember hljóp ég 9 km. Þetta fannst mér ótrúleg vegalengd og mikið var ég ánægður með sjálfan mig 58 mínútum eftir að ég lagði upp í þessa langferð, en þá var komið í mark. Upp frá þessu var tekin sú ákvörðun að fara í Gamlárshlaup ÍR, sem eins og nafnið gefur til kynna er þreytt þann 31. desember. Markmið var sett og það var að fara undir 55 mínútur.

Í framhaldinu var farið í göngugreiningu og fjárfest í forláta hlaupaskóm. Svo var haldið áfram að hlaupa. Yfirleitt 10 km, lengst 16 km og svo hafði ég lesið mér til um það að maður þyrfti að fara svokallaða hraðleiki til að auka hraðann. Í það var notaður Neshringurinn og hlaupið upp allar Strandir við Norðurströnd á vaxandi hraða, svo var skokkað mjög rólega niður. Þessum æfingum var blandað saman og samtals voru lagðir að baki 105 km í nóvember og 136 km í desember.

Svo var komið að stóra deginum, 31. desember, Gamlárshlaup ÍR. Á jólagjafalistanum höfðu verið spandexbuxur, hlaupaúr með púlsmæli og hraðamæli, drykkjarbelti, hlaupavetlingar o.fl. Þetta þýddi að undirritaður gat mætt til leiks án þess að horft væri á mann eins og geimveru. Um morguninn gerði vart við sig nettur niðurgangur vegna spennu eins og oft gerist fyrir mikilvæg golfmót, fyrir erfiða fundi í vinnunni eða fyrir mikilvæga leiki í gamla daga. Svo mikil var eftirvæntingin. Í rásmarkinu þar sem ég hafði komið mér fyrir með aftasta fólki, til þess að vera nú örugglega ekki fyrir neinum, uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að ipod-inn hafði orðið eftir heima.

 Flugeldur fór í loftið og hlaupið var hafið. Fyrstu 3 mínúturnar voru farnar á gönguhraða enda á að giska um 500 manns á undan á misjöfnum hraða. Eftir að komið var út að Mýrargötu var gefið í, mér fannst ég þurfa að vinna upp tapaðan tíma úr startinu. Frá 1 km og fram að 5 km sýndi klukkan um 4.30 mín pr. km, sem var náttúrulega alltof hratt eins og átti eftir að koma á daginn. Mér leið þó ágætlega þegar komið var að Bakkavör eftir um 5,5 km, en að brekkunni lokinni var ég alveg búinn. Púlsklukkan sýndi 188 slög og ekki var um annað að ræða en að hægja á. Að 6 km loknum sýndi klukkan 29.03 mín. Síðustu 4 km voru mikið strögl, en hlaupinu skyldi lokið og það hafðist á tímanum 51.29 mín sem var vel undir markmiði og betra en ég þorði að vona.

 Hvílík skemmtun og hvílík vellíðan að hlaupi loknu, þrátt fyrir mikla vanlíðan síðustu 4 km. Nú er ekki aftur snúið, um áramót voru sett markmið eins og siður er. Þau markmið eru flest tengd þessari hlaupadellu. Best að birta þau hér, til að setja á sig smá pressu. Jafnvel þó ég hafi ekki hugmynd um hvort þau séu raunhæf eða ekki.

1) Ljúka Þoni á 3.40 klst á árinu.

2) Ljúka hálfu á 1.40 klst á árinu.

3) Ljúka 10 km á undir 40 mín á árinu

4) Ljúka Marsþoni á 4.10 klst

 Mjög ögrandi markmið og hugsanlega ekki raunhæf fyrir tveggja metra og hundrað kílóa óreglumann, en ég ætla að reyna og vonandi kemur lífsstíllinn með. Maður hefur svo sem ekki verið þekktur fyrir að gera hlutina með einhverju hálfkáki hingað til.

 

Shit hvað maður er orðinn steiktur.

 

photogallery


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband