Mikið vatn runnið til sjávar

Var að vafra á netinu og rakst á neðangreinda grein. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan, svo mikið að ég kaus þessa vindhana nú í vor. Reyndar er ég nokkuð ánægæur með greinina sem slíka.

Fimmtudaginn 23. maí, 2002 - Aðsent efni

Seltjarnarnes

Fálki eða vindhani á Seltjarnarnesi

 

D-listanum er ekki treystandi, segir Nökkvi Gunnarsson, þegar kemur að flóknum málum, flokkurinn þarf meira aðhald.


G5G5PJ9Q

 

ÞAÐ hefur margt óprúttið komið frá D-listanum í þessari kosningabaráttu. Afhjúpuð hafa verið slagorð þeirra um lægstu skattaálögur hvort heldur er í formi útsvara eða fasteignaskatta. Hver Seltirningur hefur nefnilega undanfarin ár greitt meira í útsvar en nokkur annar á höfuðborgarsvæðinu og við greiðum næsthæstu fasteignagjöldin.

D-listinn heldur ótrauður áfram með blekkingarnar. Lítum á nokkur dæmi.

Nú hafa þeir sett sig á stall og segjast hafa staðið "að verndun vestursvæðanna". Hver er reynslan? Á árunum 1994-8 börðust sjálfstæðismenn hart fyrir því að reisa verulega íbúðarbyggð við Nesstofu. Neslistinn barðist gegn þessum áformum og beitti sér fyrir glæsilegri undirskriftarsöfnun með þverpólitískri þátttöku. D-listinn gafst því upp á byggingaráformunum rétt fyrir kosningar 1998. Byggingaráráttan blundaði þó í þeim og vaknaði hressilega á síðasta ári þegar þeir ákváðu að reisa skyldi 4000 fm hjúkrunarheimili við Nesstofu, eða ígildi 20 einbýlishúsa. Skrýtin verndunarsjónarmið!

Nú réttlætir D-listinn ákvörðunina með því, að ekki hafi verið til annað land fyrir heimilið og útskýra tvístígandann varðandi staðsetningu með því að nú fyrst megi mögulega finna hjúkrunarheimili stað á Hrólfsskálamel.

Aftur fara þeir rangt með staðreyndir. Í allri umræðu um skipulag melsins sl. tvö ár lá ljóst fyrir, að byggingarsvæðið næst Íþróttamiðstöð og íbúðum aldraðra væri tilbúið til byggingar, því rífa mætti Ísbjarnarhúsið svo að segja án fyrirvara. Þar mátti því strax staðsetja hjúkrunarheimili. Aumlegt er þeirra yfirklór!

D-listinn reynir nú að búa til þá mynd af Neslistanum að hann berjist fyrir landfyllingum. Staðreyndin er sú, að það var að tilstuðlan varaforseta bæjarstjórnar, Ernu Nielsen, að heimildarákvæði um miklar landfyllingar sunnan megin á nesinu var sett inn í drög að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Það var sami aðili, ásamt bæjarstjóra, sem lagði til að frestað yrði tillögu Neslistans um gerð hringtorgs á gatnamótum Suður- og Norðurstrandar, þar sem landfylling Reykjavíkur myndi ná inn á Seltjarnarnes og því þyrftu umferðarmannvirki að bíða. Þá voru sjálfstæðismenn fylgjandi þeirri landfyllingu. Eftir þetta allt saman töldum við rétt að fá heimildarákvæði inn í svæðisskipulagið um landfyllingu norðan megin. Þetta var samþykkt einróma í bæjarstjórn. Sjálfstæðismenn hafa verið leiðandi í landfyllingarumræðu og aldrei greitt atkvæði gegn slíkum áformum.

Landfyllingar eru ekki á stefnuskrá Neslistans.

D-listinn, sem fer fram undir slagorðinu "festa", hefur snúist eins og vindhani þegar kemur að stóru málunum, þrátt fyrir fálkann í skjaldarmerki flokksins.

Vindhani getur aldrei orðið vegvísir.

D-listanum er ekki treystandi þegar kemur að flóknum málum, flokkurinn þarf meira aðhald. Það gerist einungis með því að tryggja Neslistanum þrjá menn í bæjarstjórn.

Höfundur skipar 5. sæti á Neslistanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband