Hrindingar, veður, geðsveiflur og fleira

Ég öfgafullur einstaklingur. Ég er latur. Ég er duglegur.Ég er sorgmæddur og ég er glaður. Ég er klofinn persónuleiki. Ég er eins og íslenska veðrirð, er ekki í tísku að segja það núna?

Margt hefur drifið á daga mína frá síðustu færslu. Eitthvað hef ég reynt að puða á þrekhjólinu en það er margt skemmtilegra. Mig er farið að þyrsta í að hlaupa aftur. Á föstudag fékk ég þann úrskurð frá sjúkraþjálfara að ég þyrfti að sleppa hlaupum í 3-4 vikur til viðbótar. Á meðan verð ég að gera mér hjólið að góðu. Í framhaldinu væri hugsanlega skynsamlegra að reyna að fara hægar í sakirnar og byggja sig upp í rólegheitum. Væri gaman að prófa að gera eitthvað á eðlilegum hraða. Hálft gæti þurft að duga í Marsþoni.!!!!!!!! Nú veit ég reyndar að einhverjir kunna að kætast, en það verður að hafa það.

Ég hef farið í gegnum miklar geðsveiflur eins og flestir Íslendingar aðrir síðustu daga. Ástæðan, jú gengi landsliðsins í hrindingum. Íþrótt sem örfáar þúsundir stunda á heimsvísu. Hvernig getur heil þjóð verið svona steikt, að mér meðtöldum? Eftir tapið á móti arfaslökum Úkraínumönnum var ég einn af þeim sem snéri baki, ekki bara gegn liðinu, heldur líka gegn íþróttinni. Hverjum er ekki sama um hrindingar? Maður píndi sig svo í að horfa á Frakkaleikinn og viti menn þá sleppti ég mér alveg í gleðinni yfir því hve Íslendingar eru góðir í hrindingum. Nú er staðan orðin þannig að ég vil ólmur komast til Þýskalands og taka þátt í ævintýrinu, þrátt fyrir ólýsanlega flughræðslu. Ef við töpum svo á morgun þá eru þetta jú bara hrindingar, einkar hentugt.

Annars hefur mér verið boðið til Lundúna um næstu helgi í þeim tilgangi að horfa á tvo kappleiki í öllu göfugri íþrótt. Ég sveiflast reyndar alveg jafn mikið í skoðunum á þeim kanti. Eiður Smári var frábær í haust, einn af allra bestu leikmönnum heims. Nú er hann landanum til skammar, bara latur og frjálslega vaxinn. Í haust vildi ég að Rafa Benites yrði rekinn, hann er bara vitleysingur. Nú er Rafa Benites lang besti stjórinn í boltanum, á því leikur enginn vafi. Leikirnir sem í boði eru West Ham gegn Liverpool og Tottenham geng Arsenal. Ef satt er að Eggert Magnússon og félagar ætli að greiða miðlungsmanninum Lucas Neill 60.000 sterlingspund á viku, þá er ekki langt í gjalþrot Íslands. Það er ljóst.

Indianapolis Colts með Peyton Manning í broddi fylkingar tryggðu sér sæti í leiknum um Ofurskálina á sunnudagskvöld í hreint út sagt stórkostlegum leik.Það þarf ekki að fjölyrða um þann gríðarlega persónulega sigur sem áðurnefndur Manning vann með þessum áfanga. Nú er bara að klára dæmið og koma sér endanlega á spjöld sögunnar. Væri reyndar til í að skipta á HM í handbolta og West Ham - Liverpool, fyrir miða á þann leik.

NG


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband